Eftir langan tíma kemur loks eitthvað

Eins og komið hefur fram reyndar í byrjun árs 2010 þá fékk ég það góða ráð að skrifa um ferli mitt hér í brasinu við að léttast. Ég tók það jákvæðum huga en svo urðu ekki nema þrjár færslu, spurning hvað þær verða margar núna. En sem sagt 99, eitthvað kíló þegar ég skrifa síðast en núna 90,9 og var komin niðurfyrir 90 en eitthvað er ekki alveg eins og það á að vera. Ég stefndi niður í 85 kíló og þangað stefni ég enn. Ég hef oft velt fyrir mér afhverju í fjandanum maður er að setja sér svona markmið með tölum og máli. Væri ekki mun eðlilegra að setja sér markmið t.d. um heilsuna, hamingjuna og þá hluti og láta þá það að missa kíló verða eins og bónus við heilsubótina. Ég hef verið að lesa ótrúlega bók eftir Guðna jógagúru og ég þessari langferð hef ég ákveðið að nota hana mér til aðstoðar og ef það eru einhverjir sem lesa þetta og skilja ekki þegar ég fer að tala um skortdýr og ljós þá bendi ég þeim á að lesa bókina.

Ég er flogaveik svo það var sennilega mín besta stund þegar ég ákvað að hætta að fara í svona skyndikúra eða gríðarleg átök og gera þetta að lífsmarkmiði mínu. Það var svo notalegt að hætta bara að hugsa um allar skyndilausnirnar sem kostuðu morðfjár og fara að gera þetta að alvöru. ég hef samt verið of góð við sjálfa mig síðust mánuði og því verð ég að taka extra vel á því núna í einhvern tíma.

En það er alltaf eitthvað sem hægt er að hanga í og nota sem afsökun, klúbbur hér, veisla þar og eitthvað í vinnunni. En ég ætla að prófa hvort ég get sagt bara nei takk og staðið við það. Oftast er ég komin með eitthvað upp í mig algjörlega hugsunarlaust og svei mér ef það er oft ansi bragðlaust líka.

En sem sagt er aðallega að skrifa fyrir mig og lofa engu um næstu skrif en ef það er einhver sem les þá væri gaman að fá komment

knús í hús


Þróun í rétta átt!

Við hjónin fórum í göngutúr í morgunsárið og ræddum málin. Göngutúrinn var svo fljótur að liða og ég held að breytt hugsun hjá mér hjálpi mikið til og hver veit kannski einhverntímann á mér eftir að finnst þetta ómissandi þáttur í tilverunni. Ég er að aðlagast hægt en örugglega þeirri hugsun að hreyfing og hollt matarræði verði í aðalhlutverki hjá mér það sem eftir er. Vanalega er ég þannig að ég vil gleypa allt og byrja á öllu í einu en sit á mér núna og tek þetta eins og langhlaup. Staðfestan eykst á hverjum degi en ég er ekki enn búin að leggja í að taka matarræðið fullum tökum. Mánudagur til mæðu og þá legg ég af stað með bara einn nammidag og hreyfinguna allavega einu sinni á dag ;)


Nýr dagur ný tækifæri

Dagurinn sem nú er runninn gekk ekki alveg sem best, ég var ekki nógu sterk í dag og gaf undan nammigrísnum. Ef ég á að vera jákvæð þá gaf ég mikið minna eftir en vanalega en samt var þetta ekki alveg samkvæmt dagskránni. Ég fékk kast í nótt og var því frekar illa upplögð fyrir daginn og einmitt á svona stundu segir heilinn mér að ég þurfi að fá sælgæti, það er ekkert annað sem hann er vanur að fá eftir svona köst. Auðvitað verður líkamin þreyttur en ég man ekki eftir því að hafa heyrt né lesið að besta leiðin til að næra þreytta vöðva sé að gefa þeim hvítann sykur og nóg af aukaefnum. Fór fyrir nær ári síðan í detox og lærði heilmikið um líkaman og hvernig ég á að vera góð við hann en virðist bara hreinlega vera búin að gleyma flestu eða allavega er ég hætt að notfæra mér þessa þekkingu. En svona er þetta bara og það þýðir ekkert að hengja haus bara halda áfram og stefna upp á við.

Ég ætla að gera mér lista yfir þá hluti sem ég get gert þegar að ég fæ þessa nammilöngun. Ætla að hafa þetta hluti sem ég dúlla mér við eins og að lakka neglurnar og þess háttar dúllerí. Þetta kemur örugglega til með að hjálpa en í sannleika sagt þarf ég bara að sanna fyrir undirmeðvitundinni að ég geti og vilji þetta þ.e. að léttast og lifa skemmtilegra lífi. Þriðjudagur til þrautar segir afi minn alltaf og því er fínt að byrja þrautina í dag og taka á því. Ætla að fara eftir prógramminu í einu og öllu í viku frá og með þessum degi og mæla svo árangurinn. Það er ekki þannig að ég ætli að hætta svo heldur man ég ekki eftir því að ég hafi komist í gegnum heila viku án þess að svindla á sjálfri mér og þvi þarf ég að byrja á því að sanna fyrir mér að ég geti þetta.

 

En hvernig fer ég að því þegar að það er svo auðvelt að sannfæra mig um að ég byrji bara aftur eða að ég geti þetta bara ekki, ég er nefninlega snillingur að finna afsakanir fyrir sjálfa mig. Ég er búin að eiga líkami fyrir lífið bókina lengi og er alltaf að glugga í hana, og já ég á líka dr phil og fleiri og fleiri en hef alltaf haft álit á líkama fyrir lífið aðferðinni. Ég ákveð því hér með að lesa hana núna og fara eftir þvi sem í henni er sagt og leyfa honum Bill að sannfæra mig um að ég geti þetta.

Málið er að ég verð að hafa þetta af þar sem ég á börn sem fylgja bara í mín fótspor ef ég geri ekkert og það er mér illa við að hafa á samviskunni. Það er nefninlega ég sem kaupi inn og set fordæmi fyrir þau. Jæja samkvæmt bókinni góðu á ég að gera þolæfingar á fastandi maga á morgnanna og til þess að geta það þarf ég að vakna hálf sjö því ég verð að vera komin heim til að sjá um skrílinn klukkan hálf átta. Tók reyndar svefntöflu núna til að rétta svefninn en nú fer ég og stilli klukkuna og byrja nýtt líf.

Þangað til seinna

Jóna


Smá yfirlit

Þessi dagur er svo fallegur hér á Húsavík og hjarta mitt er fullt af von sem og jákvæðni. Ég hef eins og svo margir aðrir ákveðið að verða hollari og minnka um nokkur númer. Ég hef oft áður sett mér þessi markmið og ekki alltaf gengið sem skyldi aðallega vegna þess hversu góð ég er við sjálfa mig. Það er svo auðvelt að velta upp afsökunum og detta bara í sukk og svínarí eða hafa það gott bara eins og ég hef kallað það. Góður vinur minn stakk upp á að ég héldi út bloggsíðu og skrifaði inn á hana árangurinn eða klúðrið eftir því sem við á og vildi meina að með því fengi ég smá aðhald. Ég ákvað þvi að taka þessari áskorun og nota þessa síðu sem hjálpartæki á leið minni til betra lífs. Ég er 30 ára og er núna þegar þetta er ritað 99,9 kíló en hef því miður stundum verið þyngri. Ég held að ég sé búin að prófa alla hugsanlega kúra sem ritað hefur verið um og svei mér þá ef þeir eru ekki nokkrið sem eru nánast óþekktir en ég hef þefað þá uppi. Ó hvað lífið væri dásamlegt ef það væri til svona töfra pilla ;) En þar sem ég er búin að átta mig á að þetta verð ég að gera alveg sjálf og hef reyndar tekið mig til áður og náði mér niður í 85 kíló þá veit ég að þetta er gerlegt en ég verð að breyta svo mörgu í leiðinni til þess að árangurinn haldist. Ég fór í aðgerð í ágúst á síðasta ári og var þá 85 kíló en núna í janúar er hef ég bætt heldur betur við mig.

Ég er bjartsýn enda á ég góðan mann sem styður við mig og fjögur frábær börn. Fjölskyldan mín er líka mjög stór og allir tilbúnir að styðja við bakið á manni. 

Þennan mánuð ætlum við hjónin að koma hreyfingunni á fullt og er ég meira að segja búin að skrá mig í þrekdans tvö kvöld í viku. Við erum einnig farin að borða heldur minna af ruslfæði en ákváðum samt að taka bara eitt í einu og þennan mánuð setjum við markið á hreyfinguna og ekkert nammi.

Ferðin er sem sagt byrjuð og þessi síða verður notuð sem einskonar dagbók fyrir mig en ég hefði svo sannarlega gaman af að heyra frá fleirum um þessi málefni sem og önnur sem ég mun skrifa um.

Kveðja Jóna 

 

 


Höfundur

Jóna Kristín Gunnarsdóttir
Jóna Kristín Gunnarsdóttir

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband